Öryggis- og heilbrigðisstefna SORPU

Tilgangur og umfang

Öryggis- og heilbrigðisstefnan tekur til allra starfsstöðva SORPU, starfsfólks, verktaka og annarra sem koma að starfsemi SORPU.

Áhersla er á að öll sem koma á einhvern hátt að starfsemi SORPU komi ávallt heil heim. Þetta á við um starfsfólk, verktaka, viðskiptavini og aðra sem eiga leið um starfsstöðvar SORPU; #öllheilheim.

Áherslur stefnunnar eru:

Öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi á starfsstöðvum SORPU

  • SORPA stefnir að því að vera slysalaus vinnustaður með því að stuðla að sífelldri þroskun öryggismenningar, þannig að öll taki ábyrgð á sínu eigin öryggi og annarra.
  • SORPA skuldbindur sig til stöðugra umbóta á stjórnkerfi öryggis- og heilbrigðismála og að vinnuaðstæður séu öruggar og heilsusamlegar.
  • Öllum sem koma að starfseminni er búið öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi, hvort heldur er vegna vinnu eða heimsókna á starfsstöðvar.
  • SORPA uppfyllir lagalegar og aðrar kröfur sem lúta að öryggis- og heilbrigðismálum.
  • Skýr, viðeigandi og mælanleg markmið um öryggi og heilbrigði fólks eru sett, þeim fylgt eftir og eru grundvöllur að stöðugum umbótum.

Eyðing hættulegra aðstæðna og lágmörkun áhættu

  • SORPA skuldbindur sig til að eyða hættulegum aðstæðum og lágmarka áhættu fyrir fólk sem kemur að starfseminni.
  • Framkvæmdar eru greiningar á áhættu og tækifærum og brugðist er við niðurstöðum þeirra greininga með aðgerðum.
  • Þurfi á aðgerðum að halda á starfsstöðvum SORPU, sem miða að því að fyrirbyggja slys eða heilsutjón starfsfólks, hafa þær aðgerðir alltaf forgang fram yfir venjubundin störf.

Samvinna við starfsfólk um öryggis- og heilbrigðismál

  • Lögð er áhersla á samvinnu við starfsfólk til að nýta þekkingu og reynslu þess, auka vitund innan SORPU um öryggis- og heilbrigðismál og stuðla að heilbrigðri öryggismenningu.
  • Þátttaka starfsfólks og / eða fulltrúa starfsfólks í hverskyns fyrirbyggjandi starfi og umbótum í öryggis- og heilbrigðismálum er nauðsynlegt, m.a. í gegnum öryggisnefnd SORPU.
  • Virkt innra ábendingakerfi fyrir starfsfólk og ytra ábendingakerfi fyrir aðra er haldið úti í þeim tilgangi að gera stjórnkerfið skilvirkara og að það skili umbótum.

Vellíðan allra á vinnustaðnum

  • SORPA stuðlar að lágmörkun á streitu í vinnuumhverfinu og að gott jafnvægi sé á milli vinnu og einkalífs.
  • Til staðar eru virkar forvarnir gegn einelti, áreitni og öðru ofbeldi og virk viðbragðsáætlun þegar slíkt kemur upp.
  • Starfsfólk sýni gagnkvæma virðingu og kurteisi í samskiptum sínum við aðra.

Ábyrgð

Stjórn SORPU samþykkir og ber ábyrgð á þessari stefnu.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á framkvæmd og framgangi stefnunnar innan SORPU.

Stjórnendur starfsstöðva og efnisstrauma, með samráði og þátttöku starfsfólks, bera ábyrgð á útfærslu stefnunnar og þeim markmiðum og mælingum sem eru viðeigandi til að ná henni fram.

Starfsfólk og verktakar eru ábyrgir fyrir að fylgja þeim reglum sem ætlað er að tryggja framkvæmd stefnunnar.

Stefna þessi var samþykkt til útgáfu af stjórn SORPU þann 5. desember 2023.