Tilgangur og umfang
Mannauðsstefnan tekur til allra starfsstöðva SORPU, starfsfólks og stjórnenda. Lykilatriði í velgengni SORPU er mannauðurinn sem starfar hjá fyrirtækinu. SORPA uppfyllir lagalegar og aðrar kröfur sem snúa að jafnlaunamálum og öðrum réttindamálum. Áherslurnar í stefnunni eru:
Fjölbreytni, jafnræði og hæft starfsfólk
- SORPA er eftirsóknarverður vinnustaður sem laðar að hæft starfsfólk þar sem öll hafa jöfn tækifæri. Það er gert með því að ráða, efla og halda hæfu og traustu starfsfólki.
- Vandað er við val á nýju starfsfólki og tekið er vel á móti nýliðum. Við ráðningu er tekið mið af hæfni og reynslu umsækjenda út frá faglegu ráðningarferli sem byggist á því að finna rétta einstaklinginn í hvert starf.
- Lögð er áhersla á að tryggja fjölbreytileika og gæta jafnræðis, þar sem allir einstaklingar hjá fyrirtækinu fá jafna meðferð og tækifæri óháð kyni, kynhneigð, kynþætti, þjóðernisuppruna, aldri, trú eða öðrum félagslegum þáttum.
Jákvæð menning og gott starfsumhverfi
- Lögð er áhersla á að skapa jákvæða menningu og gott starfsumhverfi með öflugri liðsheild þar sem samskipti einkennast af gildum SORPU sem eru frumkvæði, traust og samheldni.
- SORPA tryggir gott vinnuumhverfi sem styður við heilsu, ánægju og vellíðan starfsfólks, jafnt í starfi og einkalífi.
- Boðið er upp á reglulegar heilsufarsmælingar, bólusetningar, líkamsræktarstyrk, samgöngustyrk og fræðslu um andlega og líkamlega heilsu.
- SORPA stuðlar að jafnvægi milli vinnu og einkalífs ásamt því að leggja áherslu á góð samskipti, liðsheild og góðan starfsanda.
Nýliðar og starfslok
- Lögð er áhersla á að taka vel á móti nýju starfsfólki með því að tryggja góða móttöku, viðeigandi þjálfun og upplýsingagjöf til að takast á við nýtt starf með öruggum og fullnægjandi hætti.
- Allir nýliðar fá starfsfóstra sem tekur á móti og kemur nýliða inn í viðeigandi verkefni. Borin er virðing fyrir nýrri þekkingu og reynslu sem kemur með nýju starfsfólki og lagt er upp með að nýta hana til fulls.
- SORPA leggur áherslu á að kveðja þá sem láta af störfum með virðingu.
Þekking og færni í takt við þarfir ásamt öflugri stjórnun
- Þekkingarfyrirtækið SORPA leggur mikið upp úr stöðugri starfsþróun ásamt reglulegri og uppbyggilegri endurgjöf til starfsfólks.
- Lögð er áhersla á fjölbreytta fræðslu til þess að efla færni og þekkingu starfsfólks með markvissum hætti í störfum sínum.
- Starfsfólk er hvatt til að sýna metnað og vilja til þess að eflast og þróast í starfi.
Ábyrgð
Stjórn SORPU samþykkir og ber ábyrgð á þessari stefnu.
Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á framkvæmd og framgangi stefnunnar innan SORPU.
Mannauðsstjóri, jafnlaunaráð og stjórnendur bera ábyrgð á útfærslu stefnunnar og þeim markmiðum og mælingum sem eru viðeigandi til að ná henni fram.
Starfsfólk er ábyrgt fyrir að fylgja þeim reglum sem ætlað er að tryggja framkvæmd stefnunnar.
Stefna þessi var samþykkt til útgáfu af stjórn SORPU þann 5. desember 2023.