Metan nýtt sem eldsneyti frá árinu 2000
Hver íbúi á höfuðborgarsvæðinu henti um 142 kg af úrgangi í sorptunnuna árið 2018. Þar af eru um 70% lífræn niðurbrjótanleg efni. Úrgangurinn er urðaður í Álfsnesi þar sem lífræn efni fara fljótlega að brotna niður. Á seinni stigum í niðurbrotsferlinu mynda örverur hauggas. Hauggasið er að stórum hluta metan sem er mjög orkuríkt, en einnig áhrifarík gróðurhúsalofttegund. Með því að hreinsa hauggasið og aðskilja metan frá koltvíoxíði má nýta það sem eldsneyti á ökutæki í venjulegum bensínvélum. Þannig er dregið úr notkun á jarðefnaeldsneyti, s.s. bensíni og dísil, og umhverfisáhrifum frá urðunarstaðnum. Árleg metanframleiðsla í Álfsnesi samsvarar um 2 milljónum bensínlítra og notkun þess í stað jarðefnaeldsneytis sparar úblástur um sem nemur 33.000 tonnum af CO2 á ári.
Fyrirtækið Metan ehf. var stofnað árið 1999 og er dótturfyrirtæki SORPU. Helsta markmið þess er að nýta orkuna sem eldsneyti á bifreiðar, ásamt því að annast markaðssetningu og vöruþróun á metani. Í samstarfi við Essó (nú N1 hf) opnaði fyrsta afgreiðslustöðin fyrir metan við Bíldshöfða árið 2000, en árið 2008 var gasleiðsla milli Álfsness og Bíldshöfða tekin í notkun. Í dag eru afgreiðslustöðvar fyrir metan á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, hjá N1, Olís og Orkunni. Bílar á vegum SORPU eru í dag að stærstum hluta knúnir metani og er einnig unnið að því að auka hlutfall vistvænna orkugjafa, s.s. metans, í flutningum verktaka á vegum SORPU.
SORPA hefur sett sér metnaðarfull markmið tengd loftslagsmálum sem m.a. snúa að orkuskiptum. Seinni hluta ársins 2018 tók SORPA nýja langarma hjólavél í notkun í móttöku- og flokkunarstöðinni í Gufunesi og var vélin sú fyrsta af þessu tagi á Íslandi sem gengur fyrir rafmagni. Markmiðið er m.a. að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi SORPU. Þá er metan einnig nýtt sem orkugjafi við upphitun í húsum í Álfsnesi.

Allir sorphirðubílar Reykjavíkurborgar keyra á metani.