Í lok níunda áratugar síðustu aldar var úrgangur höfuðborgarsvæðisins enn urðaður á opnum ruslahaug. Meðhöndlun úrgangs var á engan hátt í samræmi við umhverfissjónarmið dagsins í dag, þar sem lítið sem ekkert var endurnýtt og spilliefni fóru sömu leið og annar úrgangur. Til að leysa úrgangsmál íbúa höfuðborgarsvæðisins sameinuðust sveitarfélögin á svæðinu um stofnun byggðasamlagsins SORPU.
Frá árinu 1960 höfðu verið opnir ruslahaugar í Gufunesi þar sem hver sem er gat komið og losað sig við hvaða úrgang sem var ásamt því að gramsa og leita sér að einhverju bitastæðu úr hrúgunni, en í Gufunesi var ekki farvegur fyrir endurvinnslu á neinn hátt.
Aðdraganda stofnunar SORPU má síðan rekja allt til ársins 1984. Sveitafélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem þá voru átta, settu á laggirnar sérstakan verkefnishóp sem skipaður var borgar- og bæjarverkfræðingum úr hverju sveitarfélagi. Helsta markmið hópsins var að leita framtíðarlausna í urðunarmálum fyrir svæðið í heild sinni. Niðurstöðu var skilað árið 1987, en með því var lagður grunnur að stofnun Sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins bs. sem hóf starfsemi í upphafi ársins 1988. Sorpeyðing var þá skilgreind sem móttaka sorps á móttökustað eða í móttökustöðvum og öll meðhöndlun þess á leiðarenda hvort sem það var til endurvinnslu eða urðunar. Veigamesta verkefnið strax í upphafi var að finna heppilega staðsetningu fyrir sameiginlegan urðunarstað. Móttaka spilliefna, sem einnig var mjög aðkallandi að koma í betri farveg, hófst svo árið 1990 og formleg starfsemi SORPU bs. þann 26. apríl 1991 þegar móttöku- og flokkunarstöðin í Gufunesi var tekin í notkun.
Tilkoma byggðasamlagsins SORPU markaði í raun þáttaskil í íslensku samfélagi og í kjölfarið fylgdi jákvæð hugarfarsbreyting gagnvart nýtingu úrgangs og aukin vitund um neikvæð umhverfisáhrif sem fylgja rangri meðferð úrgangs. Aukin þjónusta í flokkun úrgangs, fræðsla og móttökugjöld áttu sinn þátt í að vekja almenning til vitundar um forsendur endurvinnslu og endurnýtingar. Þessi þróun hófst strax í upphafi tíunda áratugarins með tilkomu endurvinnslustöðva víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, en notkun þeirra hefur aukist jafnt og þétt hjá almenningi í gegnum árin.
Við ákvörðun um urðunarstað varð að taka tillit til nálægðar við þéttbýli, aksturslengdar frá höfuðborgarsvæðinu, að vegasamband væri gott og öruggt, að hann mundi ekki menga grunnvatn og að fyrir hendi væru þekjuefni. Að lokum náðist samkomulag um afnot af landi í Álfsnesi og þar af leiðandi leyfi um að nota hluta jarðarinnar til urðunar en urðunarstaðurinn var opnaður í júní 1991.
Sú aðferð sem notuð er til urðunar í Álfsnesi er einstök hér á landi, þ.e.a.s. að urða baggað sorp. Við böggun minnkar rúmmál úrgangs að meðaltali um 70%. Verulegur sparnaður næst því í flutningum, sérstaklega þegar haft er í huga að vegalengdin frá Gufunesi í Álfsnes og til baka er 40 um km. Ástæða þess að þessi aðferð var valin í upphafi er að Kjalarneshreppur sem í upphafi hafði lögsögu í Álfsnesi setti það sem skilyrði fyrir urðun að þessari aðferð væri beitt en var það meðal annars gert vegna ótta við fok.
Frá fyrstu tíð hefur megin hluti þess sem er urðað verið baggaður úrgangur. Hins vegar er alltaf einhver hluti sem ekki er hægt að bagga og hefur einnig verið tekið við slíkum úrgangi til urðunar í Álfsnesi. Þetta á t.d. við um sæeyru og hrat, fóður, hveiti, sand úr niðurföllum, dýrahræ og sláturúrgang (sem ekki fer í endurvinnslu).
Árið 1991 voru byggðar 8 gámastöðvar, eins og þær voru þá kallaðar, en fengu síðar virðulegra heiti, „endurvinnslustöðvar”. Þær voru staðsettar við Ánanaust, Sævarhöfða, Bæjarflöt, Jafnasel og Sléttuveg í Reykjavík, við Blíðubakka í Mosfellsbæ, Miðhraun í Garðabæ og Dalveg í Kópavogi. Seinna lokuðu stöðvarnar við Bæjarflöt, Sléttuveg og Miðhraun en opnuð var stöð í Breiðhellu. Eru endurvinnslustöðvar SORPU þar af leiðandi sex talsins í dag. Í upphafi tóku endurvinnslustöðvarnar við átta mismunandi flokkum af úrgangi eða timbri, húsgögnum, málmum, bylgjupappa, dagblöðum og tímaritum, jarðveg, blönduðu sorpi og spilliefnum. Í dag taka stöðvarnar við um 36 flokkum af úrgangi og allt frá upphafi hefur það verið stefna endurvinnslustöðvanna, að sá úrgangur, sem þangað er komið með sé flokkaður og að sem mest geti þannig farið í endurvinnslu.
Árið 1994 ákvað stjórn SORPU bs. að leggja fjármuni í rannsóknir á metangasmyndun í urðunarstaðnum í Álfsnesi. Ástæðan var m.a. sú að rétt þótti að kanna hvaða áhrif urðunaraðferðin hefði á mögulega myndun metangass. Niðurstöður lágu fyrir árið 1995 og var samkvæmt þeim áætlað að vinna mætti um 3.000 tonn af hreinu metani úr urðunarstaðnum ár hvert þegar mesta framleiðsla væri í haugnum, sennilega í kringum 2010. Að fengnum þessum niðurstöðum ákvað stjórn SORPU bs að leggja fjármuni í 1. áfanga gassöfnunarkerfis þótt ekkert skyldaði fyrirtækið til slíks.
Árið 1999 stofnaði Sorpa bs. ásamt Aflvaka hf. dótturfyrirtækið Metan hf., m.a. til að uppfylla ákvæði í starfsleyfi Sorpu bs um nýtingu á gasinu. Tilgangur Metan hf. var hreinsun, dreifing og sala á metani, framleiðsla orku úr metani, þróun á umhverfisvænum orkugjöfum og skyld starfsemi.
Fljótlega eftir stofnun fyrirtækisins setti það upp hreinsistöð í Álfsnesi þar sem hauggas var hreinsað (96-98% hreint metan), þjappað á kúta og selt á ökutæki á afgreiðslustöð Olíufélagsins ESSO í Ártúnsbrekku.
Árið 1993 hóf SORPA farsælt samstarf við fjögur líknarfélög; Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Hjálpræðisherinn og Rauða kross Íslands, um endurnýtingu nytjamuna sem annars færu í urðun. Upphaflega var fyrirkomulagið með þeim hætti að SORPA safnaði munum sem bárust á stöðvarnar og Rauði kross Íslands sá um dreifingu til þeirra sem á þurftu að halda. Með tímanum breyttist rekstrarformið yfir í nytjamarkaðinn Góða hirðinn. Árið 2018 opnaði svo Efnismiðlun Góða hirðisins á endurvinnslustöðinni á Sævarhöfða en það er markaður með notuð byggingaefni og ýmsar vörur sem geta nýst til framkvæmda og listsköpunar. Markmið Góða hirðisins og Efnismiðlunar er að endurnýta og draga úr sóun. Munir nýtast aftur hjá nýjum eigendum og allur ágóði af sölu þeirra rennur til góðgerðarmála.
Í ágúst 2020 tók gas- og jarðgerðarstöð höfuðborgarsvæðisins til starfa og hlaut hún nafnið GAJA. GAJA er stórt skref í umhverfismálum á höfuðborgarsvæðinu en þar vinnum við metangas og moltu úr matarleifum sem er sérsafnað á höfuðborgarsvæðinu.
Helsti ávinningurinn af því að vinna matarleifar í GAJU er verulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og nýting þeirra næringarefna sem felast í matarleifunum okkar.
Fyrirtækið hefur unnið ötullega að markmiðum sínum sem eru m.a. að stuðla að minnkun úrgangs eins og mögulegt er og að hvetja til aukinnar endurnotkunar og endurvinnslu. Að auki hefur verið lögð mikil áhersla á fræðslustarf frá upphafi og er tekið á móti ýmsum hópum í fræðslu á ári hverju.