GAJA er mikilvægt loftslagsmál
Helsti ávinningurinn af því að vinna lífrænan úrgang í GAJA er verulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Hliðarávinningur af þessu ferli GAJA eru um 12.000 tonn jarðvegsbætis og 3 milljónir Nm3 af metani árlega. Metanið dugar til að knýja um 4-6.000 fólksbíla eða um 100 strætisvagna. Það gæti líka séð um 2.000 meðalstórum heimilum fyrir rafmagni.
Ávinningur af GAJA
Með vinnslunni í GAJA endurheimtum við bæði orku og næringarefni sem felast í lífrænum heimilisúrgangi og drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Urðun á lífrænum og brennanlegum úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu verður hætt í lok árs 2023. Það er gríðarstórt loftslagsmál þar sem sú ákvörðun og meðhöndlun á lífrænum úrgangi í GAJU kemur til með að spara útblástur um sem nemur tugum þúsunda tonna af CO2 á ári.
Sérsöfnun á lífrænum úrgangi er lykilatriði við að tryggja hámarksafköst GAJU og hreinleika efnisins sem verður að moltu.
Öll vinnsla GAJU verður innandyra og þannig er komið til móts við þarfir nágranna stöðvarinnar hvað varðar algjöra lágmörkun á lyktarmengun. Hjá sambærilegum stöðvum í Evrópu er hluti vinnslunnar að jafnaði utandyra.
Jarðvegbætir úr lífrænum heimilisúrgangi
Uppblástur, jarðvegsrof og hnignun gróðurs er eitt stærsta umhverfisvandamálið sem Íslendingar standa frammi fyrir. Um 40% landsins telst vera talsvert, mikið eða mjög mikið rofið.
Jarðvegsbætir úr lífrænum úrgangi getur orðið öflugur liðsauki við uppgræðslu lands og hjálpar til við bindingu kolefnis í gróðri.
Þörf er á uppgræðslu á nokkrum stöðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og ýmsir aðilar hafa sýnt áhuga á að nýta efnið til landgræðslu og í skógrækt, t.d. Landgræðslan, Skógræktarfélag Reykjavíkur og Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs.
Þá eru ótalin önnur þau gæði sem felast í aukinni gróðurþekju á örfoka landi.