Ný flokkunarlína fyrir úrgang var tekin í notkun í dag í móttökustöð SORPU í Gufunesi og hefst þar nú prófunarferli á flokkun úrgangs frá heimilum. Þetta er veigamikið skref í aðdraganda þess að hafin verði tilraunavinnsla í nýrri gas- og jarðgerðarstöð (GAJA) í Álfsnesi. Nýja flokkunarlínan tekur við lífrænum úrgangi heimila á höfuðborgarsvæðinu, hreinsar úr honum plast og málma og býr til hreinan efnisstraum sem er hæfur til vinnslu í GAJA. Við sama tilefni var GAJA kynnt fyrir stjórn SORPU og fjölmiðlum, en miðað er við að tilraunavinnsla hefjist í stöðinni í júlí.
Losun minnkar um 90 þúsund tonn
Þegar GAJA kemst í fullan rekstur síðar í sumar verður hætt að urða lífrænan úrgang frá heimilum á svæðinu en í stað þess verða unnin úr honum gas- og jarðgerðarefni. Áætlað er að það muni minnka losun koltvísýrings um 90 þúsund tonn á ári sem jafngildir því að taka 40 þúsund bensín- eða díselbíla úr umferð og hægt verður að nýta innlenda orku í auknum mæli í stað innflutts eldsneytis. Auk þriggja milljón normalrúmmetra af metani verða til í stöðinni árlega um 12 þúsund tonn af moltu sem nýtt verður til almennrar landgræðslu og jarðarbóta.
Alþjóðlegar skuldbindingar
Með þessum verkefnum gegnir höfuðborgarsvæðið leiðandi hlutverki í einu umfangsmesta breytingaverkefni í umhverfismálum hér á landi á síðari tímum um leið og staðið er við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftlagsmálum.
Moltan efnagreind
Á næstu vikum verða framleiðsluferlar GAJA fínstilltir en vonast er til að stöðin verði komin í fulla vinnslu á næstu mánuðum. Nákvæmt eftirlit verður með vinnslunni enda á moltan að standast viðmiðunargildi um efnainnihald og aðrar gæðakröfur sem kveðið er á um í starfsleyfi stöðvarinnar, sem nú er til afgreiðslu.
Moltan sem afgreidd verður frá stöðinni verður efnagreind til að tryggja gæði hennar og virkni á hverjum tíma. Niðurstöður slíkra greininga munu liggja fyrir og verða birtar á vefsvæði SORPU þegar fyrsta moltan verður tilbúin í haust og síðan reglulega upp frá því.