4. mars 2022

Gjald tekið fyrir ógagnsæa poka

SORPA hefur hafið 500 króna gjaldtöku fyrir hvern ógagnsæan poka sem komið er með inn á endurvinnslustöðvar. Athugið að þetta á eingöngu við um stóra poka eins og svarta ruslapoka.

Er þetta gert til að auka árangur enn frekar í verkefninu um glæra pokann . Rannsóknir okkar hafa sýnt að of mikið af flokkanlegum úrgangi hefur borist í ógagnsæum pokum og endað í urðun, þegar auðveldlega hefði verið hægt að flokka úrganginn betur og koma honum í réttan endurvinnslufarveg.

Bann við ógagnsæum pokum snýst fyrst og fremst um að draga úr urðun og auka flokkun. SORPA áætlar að verkefnið skilar um 1.200 tonna samdrætti í urðun á ári. Verkefnið hefur þar af leiðandi gengið vel og hefur verið tekið vel í það enda eru flestir sammála um mikilvægi þess að flokka og að draga úr urðun.

Ógagnsæir pokar eru ennþá gagnlegir til ýmissa nota eins og að fara með dósir og flöskur í Endurvinnsluna hf. (Dalvegi 28, Hraunbæ 123, Skútahrauni 11 eða Knarrarvogi 4) eða í grenndargáma Grænna skáta . Þá er einnig hægt að skila fötum í grenndargáma Rauða krossins í ógagnsæjum pokum.

Glæra og gagnsæa poka má síðan kaupa í öllum helstu mat- og byggingavöruverslunum.

Við biðlum til fólks að sýna starfsfólki endurvinnslustöðvanna skilning og tillitssemi vegna þessa.

Nýjustu fréttir