26. nóvember 2024

Óbreytt gjaldskrá á endurvinnslustöðvum SORPU

Kæru viðskiptavinir,

Ný gjaldskrá SORPU tekur gildi 1. janúar 2025. Allir liðir gjaldskrár nema einn haldast óbreyttir, og við gjaldskrána bætist nýr gjaldflokkur til að koma betur til móts við þarfir atvinnulífsins. Gjaldskrá á endurvinnslustöðvum helst óbreytt milli ára.

Eini liðurinn sem hækkar milli ára er móttaka á textíl í móttöku- og flokkunarstöðinni í Gufunesi, sem hækkar úr 28,3 kr./kg í 75 kr./kg, auk virðisaukaskatts. Breytingin hefur því ekki bein áhrif á íbúa, sem skila textíl á endurvinnslu- eða grenndarstöðvar. SORPA tók fyrr á þessu ári við söfnun og meðhöndlun á textíl frá höfuðborgarsvæðinu. Þegar flokknum var bætt við gjaldskrá SORPU um mitt ár lá heildarkostnaður við útflutning hans ekki fyrir. Nú hefur sá kostnaður komið upp á yfirborðið og endurspeglast hann í gjaldskránni.

Þessu til viðbótar hefur nýjum gjaldskrárflokki verið bætt við í GAJU fyrir matvæli í umbúðum sem búið er að fjarlægja úr ytri umbúðum. Að taka matvæli í umbúðum úr ytri umbúðum er kostnaðarsöm og tímafrek vinna fyrir starfsfólk SORPU, og því rétt að bjóða fyrirtækjum sem vilja sjálf leggja í þann kostnað að taka matvæli í umbúðum úr ytri umbúðum og afhenda GAJU. Nýi flokkurinn kostar 60,45 kr./kg, samanborið við matvæli í umbúðum, sem kosta 71,51 kr./kg.

Miklar hagræðingaraðgerðir innan SORPU skila þessum góða árangri. Meðal þeirra aðgerða er innhýsing verktaka á urðunarstað SORPU í Álfsnesi, og áhersla á aðhaldssaman rekstur.

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU, fagnar því að geta haldið hækkunum á gjaldskrá SORPU í algjöru lágmarki: „SORPA tekur hlutverk sitt um að koma úrgangi í sem bestan farveg alvarlega, og þar gefum við ekki afslátt. Það er því ekki sjálfgefið að geta haldið gjaldskrá nánast óbreyttri milli ára og gefa á sama tíma ekki afslátt af þessum kröfum. Við erum að koma út úr miklum verðbólgutímum og því ljóst að óbreytt verð fyrir móttöku úrgangs felur í sér lækkun þeirra að raunvirði. Þrotlaus vinna starfsfólks SORPU við að koma auga á tækifæri til hagræðingar skila okkur þessum árangri, og fyrir þá vinnu er ég þakklátur,“ segir Jón Viggó.

Gjaldskrá Sorpu má sjá hér

Nýjustu fréttir