Góði hirðirinn hefur verið valinn besta búðin í bænum - Best Goddamn Store - af tímaritinu The Reykjavik Grapevine. Ekki nóg með það heldur líka - Best of the best – Það allra besta – þegar kemur að framúrskarandi verslun, afþreyingu og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er mikill heiður og viðurkenning fyir allt það stóra samfélag sem Góða hirðinn er: starfsfólk, viðskiptavinir, hönnuðir, listafólk, umhverfissinnar, grúskarar, safnarar og fleira gott fólk. Allskonar skapandi og hugmyndaríkt fólk sem er að ryðja nýjar og spennandi leiðir og breyta almennri hugsun og hegðun um tísku, neyslu og úrgang.
Góði hirðirinn vill vera hringrásarmiðstöð þar sem hugsun og aðferðir hringrásarhagkerfis eru í forgrunni; þar sem vörur, hlutir og efni halda verðmæti sínu og notagildi eins lengi og mögulegt er. Skapandi samfélag sem hugsar út fyrir boxið, gefur hlutum framhaldslíf með endurnotkun og endurframleiðslu. Hringrásarverkefni til að draga úr úrgangi og loftmengun. Góði hirðinn er ekki hagnaðardrifið verkefni og gefur allan ágóða í líknarmál og góðgerðarstarfsemi. Til að mynda gaf Góði hirðirinn allt verðlaunafé sitt frá Grapevine til frumkvöðlanna í bakaríinu Hygge, sem lentu í öðru sæti.
Takk fyrir okkur og vinnum saman að skemmtilegri og bjartari framtíð!