Chat with us, powered by LiveChat
19. mars 2025

Árangur af flokkun 2024

Minna rusl og betri flokkun

Ljóst er að höfuðborgarbúar virðast huga mun betur að hringrásarhagkerfinu en áður því magn þess sem hver einstaklingur hendir af matarleifum, pappír, plasti og blönduðum úrgangi, fór úr 224 kg á mann árið 2020 niður í 187 kg árið 2024. Ef einungis er horft til blandaða úrgangsins fór hann úr 173 kg á mann niður í 99 kg.

Arangur2024-1

Fjórflokkunin gengur vel

Breytingar í magni úrgangs sýna glögglega að fólk hefur tekið fjórflokkuninni vel þar sem stór skref hafa verið tekin við flokkun úrgangs, sem hófst almennt á höfuðborgarsvæðinu um mitt ár 2023. SORPA gerir auk þess árlega rannsókn á úrgangi sem er ætlað að svara spurningum um eðli úrgangs sem fer til förgunar, meta hversu vel okkur gengur að flokka, auk þess að vera liður í þróun aðferða og endurvinnslufarvega. Þegar samsetning úrgangs í blönduðum úrgangstunnum var skoðuð kom í ljós að matarleifar hafa farið úr 60 kg á mann árið 2022 niður í tæp 18 kg árið 2024. Plast fór úr tæpum 22 kg niður í rúm 13 kg á mann, en pappírinn fór úr tæpum 13 kg árið 2022 niður í tæp 8 kg árið 2024.

Mikið hefur áunnist og vonumst við til að ná enn betri árangri á næstu misserum!

98% rétt flokkun í matarleifunum

Þegar rýnt er í tunnurnar sem taka við flokkuðum matarleifum blasa einnig jákvæðar fréttir við því 98% þess sem þar ratar er rétt flokkað sem verður að teljast mjög vel af sér vikið.

Lífræni úrgangurinn fer í gas- og jarðgerðarstöðina GAJU en helsti ávinningurinn af því að vinna matarleifar í GAJU er verulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda.

Arangur2024-2.jpg

Nýjustu fréttir