Spurt og svarað

Sorphirða og tunnuleiga

  • Af hverju er ekki búið að tæma tunnurnar hjá mér?

    SORPA er eingöngu móttökuaðili fyrir sorp, við sjáum hvorki um sorphirðu né tunnuleigu. 
    Slíkar fyrirspurnir skal senda á viðeigandi sveitarfélag.

  • Býður SORPA upp á sorphirðu eða tunnuleigu fyrir fyrirtæki?

    SORPA er eingöngu móttökuaðili fyrir sorp, við sjáum hvorki um sorphirðu né tunnuleigu. 
    Slíkar fyrirspurnir skal senda á fyrirtæki sem sjá um sorphirðu eða tunnuleigu fyrir fyrirtæki.

  • Get ég pantað tunnu hjá SORPU fyrir heimilið mitt?

    SORPA er eingöngu móttökuaðili fyrir sorp, við sjáum hvorki um sorphirðu né tunnuleigu. 
    Slíkar fyrirspurnir skal senda á viðeigandi sveitarfélag.

  • Sinnir SORPA sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu?

    SORPA er eingöngu móttökuaðili fyrir sorp, við sjáum hvorki um sorphirðu né tunnuleigu. 
    Slíkar fyrirspurnir skal senda á viðeigandi sveitarfélag.

Skilagjaldsskyldar umbúðir

  • Ég fékk ekki greitt fyrir dósir og flöskur á endurvinnslustöð SORPU, hvað á ég að gera?

    Móttaka fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir eru í höndum Endurvinnslunnar hf.

    Fyrirspurnir er varða greiðslu skal senda á netfang Endurvinnslunnar (evhf@evhf.is) eða hafa samband í síma 588 8522.

  • Er SORPA með móttöku fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir?

    Endurvinnslan hf. er með móttöku fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir á fjórum endurvinnslustöðvum SORPU. Í Ánanaustum, Breiðhellu og Jafnaseli er vélræn flokkun og talning en í Blíðubakka þarf að koma með umbúðir taldar og flokkaðar eftir tegund.

    Á öllum endurvinnslustöðvum SORPU eru Grænir skátar með gáma fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir og fer þá ágóðinn í styrktarsjóð þeirra.

    Móttökustaðir Endurvinnslunnar hf. eru einnig í Knarravogi 4, Köllunarklettsvegi 4, Skútahrauni 11, Dalvegi 28 og Hraunbæ 123.

Flokkun

  • Þurfa matarumbúðir að vera tandurhreinar áður en ég flokka þær?

    Nóg er að skola úr umbúðum þannig að það komi ekki lykt af þeim inni hjá þér.

  • Mega plastleikföng fara í tunnu fyrir plast?

    Ef leikföngin ganga fyrir rafmagni eða rafhlöðum þá á að skila þeim í gám fyrir raftæki á endurvinnslustöðvum okkar. Tunnur fyrir plastumbúðir við heimili eru eingöngu ætlaðar fyrir plastumbúðir þannig að best er að skila plastleikföngum á endurvinnslustöðvar.

  • Tekur SORPA við lyfjum og lyfjaumbúðum?

    SORPA tekur ekki við lyfjum frá einstaklingum.

    Tekið er við lyfjum endurgjaldslaust í öllum apótekum.

    Lyfin skulu tekin úr ytri umbúðum, þ.e. þeim umbúðum sem hafa ekki komist í snertingu við lyfin. Ytri umbúðir skulu flokkaðar eftir tegund umbúða, oftast er um að ræða pappír, plast eða gler. Innri umbúðum, s.s. pilluspjöldum, skal skilað með lyfjunum í apótek.

  • Hvernig eru samsettar umbúðir flokkaðar, t.d. úr plasti og pappa?

    Ef mögulegt er þá er best að taka umbúðirnar í sundur og flokka síðan. Ef það er ekki hægt þá eru oft leiðbeiningar utan á umbúðum sem segja í hvaða flokk þær fara. Ef þú ert óviss hvernig á að flokka þá er best að setja umbúðirnar með blönduðum heimilisúrgangi.

  • Hvernig veit ég hvort umbúðir séu úr plasti eða áli, t.d. kaffi- og snakkpokar?

    Þumalputtareglan er sú að ef þú krumpar það saman og það sprettur út aftur er það plast, ef það helst samankrumpað er það ál.

  • Hvernig á að flokka blandaðar umbúðir (t.d. plasthlutir úr ólíkum gerðum að plasti)?

    Ýmsar umbúðir eru samsettar úr ólíkum efnum og eru þar af leiðandi ekki hentugar til endurvinnslu. Best er að aðskilja umbúðir eins og mögulegt er og setja svo í viðeigandi flokkunarílát. Ef það er ekki hægt eða ef þú ert í vafa þá er best að umbúðirnar fari með blönduðum úrgangi. Þá eru minni líkur á að þær þvælist fyrir efni sem raunverulega er hægt að endurvinna.

  • Hvernig á að flokka gjafaumbúðir?

    Gjafaumbúðir úr pappír flokkast með pappír, líka þó hann sé úr glanspappír. Ef umbúðirnar eru úr plasti þá flokkast þær með plasti. Góð regla til að þekkja pappír og plast í sundur er að pappír rifnar auðveldlega á meðan það teygist á plastinu.

  • Hvernig á að flokka gjafabönd úr plasti?

    Gjafabönd flokkast sem plast og er mikilvægt að þau fari í réttan farveg. Ef þau fara með almennu rusli er hætta á að böndin vefjist utan um flokkunarvélar okkar sem gerir vélarnir óstarfhæfar.

  • Þarf að hreinsa kertavax úr sprittkertakoppum?

    Það er alltaf best að aðskilja efni eins og mögulegt er. Ef það er ekki hægt þá mega kertavax afgangar fara með þar sem vaxið brennur við endurvinnslu á málmkoppunum.

  • Hvað á að gera við flugelda og flugeldarusl?

    Flugeldarusl má alls ekki fara í tunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang.

    Flugeldarusli má henda á endurvinnslustöðvum SORPU þegar þær opna á nýju ári. Ósprungnir flugeldar fara í spilliefnagám á endurvinnslustöðvum.

    Látum flugeldarusl ekki grotna niður og verða að drullu og sóðaskap. Leir er notaður í botninn á skottertum sem gerir það að verkum að pappinn sem eftir verður er ekki hæfur til endurvinnslu. 

  • Hvernig flokka ég lífplast?

    Lífplast er ekki hægt að endurvinna með plasti og fer því ekki með plastinu. Eins og er þá er það ekki að jarðgerast nógu vel og getur truflað jarðgerðina. Ekki setja lífplast með matarleifum. Best að setja lífplast í blandaðan úrgang.

  • Til þess að flokka - þarf ég að breyta einhverju heima hjá mér?

    Það er mikilvægt að eldhúsið og heimilið mæti kröfum um aukna flokkun. Þetta er hins vegar alveg valkvætt hvernig það er gert. En það er gott að eiga sérstök ílát fyrir plast og pappa/pappír. Allir íbúar höfuðborgarsvæðisins fá svo afhent sérstakt ílát fyrir matarleifar og bréfpoka með vorinu 2023. Ennfremur þarf að flokka gler, málma og skilagjaldsskildar umbúðir (flöskur og dósir) og því ágætt að gera einhverjar ráðstafanir varðandi það.

  • Ég vil flokka allt og gera það vel - hversu margir flokkar eru í boði?

    Á vormánuðum verða breytingar á flokkunarkerfi úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Stærsta breytingin er sú að sveitarfélögum verður skylt að safna fjórum úrgangsflokkum við heimili – matarleifum, plasti, pappír, og blönduðum úrgangi. Sérstök söfnun á þessum úrgangsflokkum við heimili er mikið framfaraskref og svar við ákalli íbúa um aukna flokkun.

    Langflest heimili á höfuðborgarsvæðinu flokka nú þegar plast og pappír sér en söfnun á matarleifum er mikilvæg breyting til að styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Allar nánari upplýsingar um þessar breytingar eru á vef SORPU og á vefnum www.flokkum.is.

    Þessu til viðbótar verða gerðar breytingar á grenndarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar söfnun á plasti og pappír verður komin að húsvegg hjá íbúum minnkar þörfin fyrir söfnun á þeim á grenndarstöðvum. Grenndarstöðvar fá því nýtt hlutverk og á þeim verður safna málmumbúðum, glerumbúðum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum eins og lög gera ráð fyrir að sé safnað í nærumhverfi. Þessum flokkum er skylt að halda aðgreindum og koma í réttan farveg.

    Ef þú þarft að losa þig við aðra úrgangsflokka er best að snúa sér á eina af endurvinnslustöðvum SORPU, þar sem tekið er á móti tæplega 40 mismunandi úrgangsflokkum. Rétt er að minna á að á þeim er auðvitað líka tekið á móti blönduðum úrgangi, plasti, pappír, gleri, málmi, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum.

Endurvinnslustöðvar

  • Tekur SORPA við spilliefnum frá fyrirtækjum?

    Nei, SORPA tekur eingöngu við spilliefnum frá heimilum. Fyrirtækjum er bent á Terra Efnaeyðingu.

  • Er hægt að fá kertavax hjá SORPU?

    Já, í Efnismiðlun okkar á endurvinnslustöðinni að Sævarhöfða er hægt að ná í kertavax.

  • Er hægt að skila ónýtum hlutum í nytjagám Góða hirðisins?

    Munir sem gefnir eru í Góða hirðinn þurfa að vera í nothæfu ástandi. Ónothæfum munum sem settir eru í nytjagám Góða hirðisins mun verða fargað og því skapar flutningur þeirra fyrst í Góða hirðinn óþarfa umhverfisáhrif, umstang og kostnað.

  • Má ná sér í efni eða hluti á endurvinnslustöðvum SORPU?

    Nei, það er með öllu óheimilt að ná í hluti eða efni úr gámum á endurvinnslustöðvum. Nytjahluti er hægt að versla hjá Góða hirðinum. Þá er Efnismiðlun Góða hirðisins markaður fyrir notuð byggingarefni og ýmsar vörur sem geta nýst til framkvæmda og listsköpunar. Efnisimiðlanir eru staðsettar á Endurvinnslustöðvum okkar að Sævarhöfða og Breiðhellu.

  • Er hægt að fá byggingarvörur eða vörur til listsköpunar frá SORPU?

    Efnismiðlun Góða hirðisins er markaður fyrir notuð byggingarefni og ýmsar vörur sem geta nýst til framkvæmda og listsköpunar. Efnismiðlanir eru staðsettar á endurvinnslustöðvum SORPU á Sævarhöfða og í Breiðhellu.

    Á Facebook síðum markaðanna er hægt að fylgjast með vöruúrvali og tilboðum:

    Efnismiðlun Sævarhöfða

    Efnismiðlun Breiðhellu

  • Ég henti óvart einhverju sem átti ekki að fara í gám. Hvað á að gera?

    Hægt er að hafa samband við SORPU í síma 520 2200.
    Ef hlutur fór óvart í gám fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir til góðgerðamála er hægt að hafa samband við Græna skáta í síma 550 9800 eða í graenir@skatar.is
    Ef hlutur fór óvart í gám fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir sem fara til Endurvinnslunnar hf. er hægt að hafa samband við Endurvinnsluna í síma 588 8522 eða í evhf@evhf.is

  • Af hverju eru svartir pokar bannaðir á endurvinnslustöðvum SORPU?

    Rannsóknir okkar sýndu að of mikið af flokkanlegum úrgangi hefur verið að berast til okkar í svörtum pokum og endað í urðun þegar auðveldlega hefði verið hægt að flokka úrganginn betur og koma honum í réttan endurvinnslufarveg.

    Bann á svörtum pokum snýst þess vegna fyrst og fremst um gagnsæi en eftir að við fórum að banna svarta poka hefur dregið úr urðun um 1.200 tonn á einu ári. Verkefnið hefur þar af leiðandi gengið vel og flestir hafa tekið vel í það enda eru flestir sammála um mikilvægi þess að flokka.

    Til að auka árangurinn enn frekar höfum við nú byrjað að rukka 500 krónur fyrir hvern svartan poka sem kemur inn á endurvinnslustöðvar okkar og inniheldur úrgang.

    Svörtu pokana er þó ennþá hægt að nota, til dæmis til þess að fara með dósir og flöskur í Endurvinnsluna (Dalvegi, Knarravogi eða Árbæ) eða fyrir föt sem fara í grenndargáma.

    Ef það þarf síðan að henda svörtum pokum, t.d. ef þeir eru slitnir og ónýtir, þá er hægt að henda þeim í gám fyrir plast á grenndarstöðvum eða endurvinnslustöðvum og þannig fara þeir í endurvinnslu.

Grenndarstöðvar

  • Hvernig læt ég vita af slæmri umgengni eða fullum gámum á grenndarstöðvum?

    Grenndargámakerfið er rekið af SORPU, sem er með verktaka í losun á gámunum. Ákvörðun um  staðsetningu grenndarstöðva, fjölda gáma á hverjum stað og umhirðu á svæðinu er í höndum sveitarfélaganna sjálfra. Viljir þú láta vita af fullum grenndargámum eða slæmri umgengni þá er hægt að hafa samband við það sveitarfélag þar sem grenndargámarnir eru staðsettir í eða senda okkur ábendingu sem við svo komum í réttan farveg.

  • Af hverju eru opin svo lítil á grenndargámum?

    SORPU ber að fylgja öryggisstöðlum við útboð og var farið yfir mögulegar gerðir og stærðir lúgu á gámunum áður en þeir voru boðnir út. Niðurstaðan var að fullnýta þá stærð sem staðlar leyfa, sem er 20 sm í þvermál. Helsta ástæða þess að öryggisstaðallinn kveður á um hámarks stærð er að koma í veg fyrir að forvitin börn fari inn í gámana, líkt og gerst hefur með skelfilegum afleiðingum. SORPA hefur því einfaldlega ekki leyfi til að hafa op grenndargámanna stærri, jafnvel þó við vildum gjarnan geta komið betur til móts við þarfir íbúanna. 

  • Hvernig er best að losa efni í grenndargáma?

    Góð leið til að losa í gámana er t.d. að nota minni poka, s.s. brauðpoka sem oftast nýtast ekki, undir léttari plastumbúðir. Bæði auðveldar það losun í gáminn og minnkar líkur á foki á léttari umbúðum. Stærri umbúðir, eins og brúsa eða stóra bakka, er gott að pressa vel saman. Þannig er auðveldara að koma þeim inn um lúguna, auk þess sem gámarnir nýtast betur og sjaldnar þarf að losa þá með tilheyrandi umhverfisávinningi. 

Almennar spurningar um SORPU

  • Sækir SORPA gömul jólatré til íbúa?

    Sorpa sækir ekki jólatré til íbúa en hægt er að koma með trén á endurvinnslustöðvar okkar. Sum sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sækja trén til íbúa en nánari upplýsingar um það finnurðu á miðlum þíns sveitarfélags. Þá er líka hægt að nýta heimsækingarþjónustu íþróttafélaganna.

  • Selur SORPA flokkunarílát?

    Nei SORPA selur ekki flokkunarílát. Gott er að athuga hjá verslunum sem selja heimilis- eða skrifstofubúnað.

  • Af hverju er gjaldskylda á sumum úrgangsflokkum?

    Íbúar greiða fyrir losun úrgangs frá daglegum heimilisrekstri í gegnum sorphirðugjöld. Úrgangur frá framkvæmdum fellur ekki þar undir og því greiða íbúar fyrir hann við losun á endurvinnslustöð.

    Rekstraraðilar hafa ekki greitt sorphirðugjöld til sveitarfélaga og greiða því fyrir losun flestra úrgangstegunda.