Plast er flókið efni að því leyti að til eru margar mismunandi tegundir og þær þarf að flokka hverja frá annarri til að hægt sé að endurvinna efnið. Því einsleitari sem plaststraumar eru í upphafi því skilvirkari verður flokkunin og því meira magn skilar sér sem nýtt hráefni.
Til að auka endurvinnslumöguleika plasts á endurvinnslustöðvum er það nú flokkað í fjóra mismunandi flokka:
Hver þessara plaststrauma þarf sértæka vinnslu hjá móttökuaðila. Til dæmis getur stórt filmuplast vafist utan um minni plastumbúðir, sem gerir flokkun þeirra í vélum erfiðari, og frauðplast sem brotnar auðveldlega í litlar einingar smitast yfir á aðra plasthluti. Slík blöndun á mismunandi plasti leiðir því til lægra endurvinnsluhlutfalls og meira magn fer til brennslu. Þrátt fyrir að efnið nýtist til orkuvinnslu er það sóun á hráefni.
Til að hækka endurvinnsluhlutfall á plasti og gefa því nýtt líf er þess vegna nauðsynlegt að flokka plastið í fleiri flokka. Sem dæmi þá er ávinningurinn af því að flokka filmuplast að endurvinnsluhlutfall þess fer úr því að vera um 30% í blönduðum plaststraumi yfir í rúmlega 80% ef það er flokkað sérstaklega. Ávinningurinn af flokkun frauðplasts er jafnvel enn meiri.
Plastumbúðir er það sem fellur til dagsdaglega á heimilum, líkt og umbúðir utan af matvælum og það sem kemur frá baðherbergjum (til dæmis sjampóbrúsar). Plastumbúðir mega fara í tunnur fyrir plast við heimili eða í grenndargáma.
Umbúðir þurfa að vera tómar (án matarleifa) og æskilegt er að skola þær svo ekki komi ólykt við geymslu.
Ef þú ert óviss um hvort umbúðir séu úr plasti eða áli, t.d. snakkpokar, þá er þumalputtareglan sú að ef þú krumpar umbúðirnar saman og þær spretta aftur út þá eru þær úr plasti. Ef þær haldast samankrumpaðar eru þær úr áli.
Frauðplast er eitt af því efni sem er til vandræða ef það fer með öðru plasti. Frauðplast brotnar niður í litlar agnir og loðir við annað plast sem skemmir endurvinnslumöguleika þess.
Frauðplast sem á að safna sér er til dæmis utan af nýjum raftækjum og annað hreint frauðplast. Það þarf hins vegar að vera laust við öll auka efni eins og límband, pappa, steypu og timbur.
Ekki er hægt að endurvinna óhreint frauðplast, til dæmis undan matvælum og einangrunarfrauðplast með steypu og fer það því með blönduðum úrgangi.
Filmuplast er verðmætt efni og gott til endurvinnslu ef það er flokkað sérstaklega.
Filmuplast er efni sem fellur ekki mikið til á heimilum og kemur aðallega frá fyrirtækjum. En frá heimilum gæti þetta til dæmis verið umbúðir utan af nýjum vörum (til dæmis raftækjum) eða notaðir plastpokar. Filman má vera glær eða lituð.
Hafa skal í huga að lífplast á ekki heima í þessum flokki, eins og höldupokar úr flestum verslunum í dag.
Það sem fer í flokk fyrir hart plast er meðal annars leikföng (ekki rafmagns), þvottakörfur, hreinar plastruslatunnur, garðhúsgögn, stuðarar, plastfötur, plastbox, plastbretti, plaströr, blómapottar, PVC gluggakarmar (ekki með gleri) og fleira sambærilegt.
Samsettir hlutir eiga ekki heima með hörðu plasti. Það eru hlutir eins og raftæki, barnabílstólar, kælibox, málningabakkar eða fötur með málningu í, veiðistangir, garðslöngur og annað sem ekki er hreint hart plast.
Plastumbúðir
Efnið er pressað og baggað í móttöku- og flokkunarstöð SORPU til að draga úr rúmmáli og síðan flutt til Svíþjóðar. Þar er plastið flokkað eftir tegundum og búnar til plastflögur eða plastperlur. Úr endurunnu plasti er meðal annars hægt að búa til nýjar plastumbúðir.
Sumar plastumbúðir eru ekki hæfar til endurvinnslu, til dæmis ef þær eru samsettar úr fleiri en einni tegund plasts. Þær fara þá til brennslu og nýtast til varma- og rafmagnsframleiðslu.
Frauðplast
Frauðplast er meðal annars endurunnið hér á landi og úr því er framleitt einangrunarplast fyrir byggingariðnað.
Þá er frauðplast líka pressað í kubba í sérstakri pressu í móttöku- og flokkunarstöð og það er sent erlendis í endurvinnslu. Afurðir úr því geta meðal annars verið nýir frauðplastkassar og einangrunarplast fyrir byggingariðnað.
Filmuplast
Hrein plastfilma er send til erlendis til endurvinnslu. Úr plastfilmunni er hægt að búa til nýja plastfilmu.
Hart plast
Efnið er pressað og baggað í móttöku- og flokkunarstöð SORPU til að draga úr rúmmáli og síðan flutt til Svíþjóðar. Þar er plastið flokkað eftir tegundum og úr því er hægt að búa til nýja hluti úr plasti, t.d. ný garðhúsgögn, blómapotta, fötur og fleiri ílát.