Tæplega 1.200 tonnum skilað til GAJU í janúar
GAJA, gas- og jarðgerðarstöð SORPU, tók á móti 1.192 tonnum af efni til meðhöndlunar í janúarmánuði. Með hverju tonninu sem berst til GAJU dregur SORPA úr losun gróðurhúsalofttegunda frá úrgangsmeðhöndlun höfuðborgarsvæðisins.
GAJA er mikilvægur liður í að hætta að urða lífrænan úrgang á höfuðborgarsvæðinu og hætta alfarið urðun í Álfsnesi árið 2023. Í janúar voru tæplega 7.600 tonn af efni urðuð á urðunarstaðnum í Álfsnesi samanborið við tæplega 9.500 tonn í janúar í fyrra. Samdráttur í urðun nemur því um það bil 1.900 tonnum á fyrsta mánuði ársins, eða um 20 prósentum.
Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU, segir ánægjulegt að sjá hvað urðun hefur dregist saman og að sjá það magn efnis sem hefur verið tekið til meðhöndlunar í GAJU. „Það er ekki einfalt að keyra svona verksmiðju í gang en með góðu starfsfólki hefur okkur tekist að halda vel á málunum. Það er ánægjulegt að sjá svona umfangsmikið hringrásar- og loftslagsverkefni komast af stað. GAJA er ein stærsta loftslagsaðgerð sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu frá því heitt vatn kom í stað kola við húshitun,“ segir Jón Viggó. „Hún er líka hryggjarstykki í umbreytingarferli SORPU yfir í þjónustumiðað framleiðslu- og þekkingarfyrirtæki sem er leiðandi á sviði úrgangsmála á Íslandi.“
Gasvinnsla er hafin í GAJU en hún hefur farið stöðugt vaxandi frá því að stöðin var gangsett í takt við það magn sem hefur borist til hennar. Stjórnendur SORPU hafa þegar lagt grunninn að ráðstöfun á stórum hluta þess metans sem verður til í GAJU. Það var gert með undirritun viljayfirlýsingar um kaup á milljón normalrúmmetrum af metangasi við Malbikstöðin Fagverk á síðasta ári og með samningi við Te & kaffi um kaup á metani til kaffiristunar.
Meira rusl
Tæplega 1.200 tonnum skilað til GAJU í janúar
18. febrúar 2021GAJA, gas- og jarðgerðarstöð SORPU, tók á móti 1.192 tonnum af efni til meðhöndlunar í janúarmánuði. Með hverju...
Góði hirðirinn verður áfram á Hverfisgötu
12. febrúar 2021Stjórnendur og stjórn SORPU og Góða hirðisins hafa ákveðið að halda rekstri verslunar Góða hirðisins við Hverfisgötu...